143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

209. mál
[12:35]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Frumvarpið leggur til að sektarákvæði laganna komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. október 2014. Ég hefði hins vegar talið mun æskilegra að fresta gildistöku laganna til ársins 2020 af ýmsum ástæðum.

Lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, byggja á Evróputilskipun og voru samþykkt af Alþingi í apríl á þessu ári. Markmið laganna er að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í samgöngum á landi með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru hins vegar verulega íþyngjandi og geta valdið þjóðarbúinu miklum kostnaði. Ég dreg í efa að þau muni draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Fyrst ber að geta þess að Íslandi ber engin skylda til að hefja íblöndun fyrr en árið 2020. Sé markmiðið að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í samgöngum er ekki víst að það markmið náist. Nú hafa komið fram vaxandi gagnrýnisraddir á íblöndun í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum. Notkun ræktaðs lands undir framleiðslu eldsneytis hefur valdið miklu meiri losun gróðurhúsalofttegunda en menn höfðu búist við og hún hefur valdið hækkun á matvælum sem kemur hart niður þar sem hungursneyð ríkir. Það má því allt eins búast við því að árið 2020 verði Evrópusambandið sjálft búið að fella niður tilskipun um íblöndun.

Svo ber að geta þess að íblöndunarefni eru miklu dýrari en venjulegt eldsneyti. Á þeim sex árum sem eru frá deginum í dag til ársins 2020 gæti kostnaðarauki fyrir þjóðarbúið orðið 6 milljarðar á öllu tímabilinu og við þurfum að greiða þetta í gjaldeyri að öllum líkindum.

Það er nefnilega töluverð óvissa um það hvort innlend olíufélög, olíudreifingarfélög, munu kjósa innlend íblöndunarefni, þ.e. metanól og lífdísil sem framleiddur er á Íslandi. Það er ekkert í lögunum sem skyldar þau til þess og það er hugsanlegt að þau telji áhættu fólgna í því að nota innlend íblöndunarefni í staðinn fyrir að nota efni frá stærri birgjum erlendis. Svo hefur líka komið í ljós að hlutfall metanóls af innlendri framleiðslu má ekki vera meira en 3% í bensíni, því mun þurfa að flytja inn etanól til mótvægis eða erlendan lífdísil.

Þannig að maður veltir fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að leggja svo íþyngjandi löggjöf á landsmenn. Þetta mun geta valdið útstreymi á gjaldeyri upp á 6 milljarða ef illa fer. Með sömu 6 milljörðum gætum við gert aðra hluti sem leiða til miklu skilvirkari takmörkunar á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við gætum til dæmis, í staðinn fyrir að greiða hugsanlega 6 milljarða í kaup á erlendum íblöndunarefnum, sem er vissulega mikil hætta á, og ef við sætum uppi með ekki neitt eftir þann tíma, veitt þessa 6 milljarða til niðurgreiðslna á rafbílum. 1 milljón á hvern rafbíl. Sá rafbílafloti mundi duga til að draga úr útblæstri á ári um 35 þús. tonn og spara gríðarlega mikið af innfluttu eldsneyti með alveg öruggum hætti. Þetta er sjónarmið sem ég vil að skoðum aðeins betur.

Ég fagna því að því hefur verið frestað að olíufélög verði sektuð fyrir að hefja ekki íblöndun strax 1. janúar, en ég hefði gjarnan viljað að þetta mál yrði skoðað aðeins betur og gildistöku laganna yrði frestað til ársins 2020.