143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar sýna skarpa, hugmyndafræðilega sveigju frá þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér hefur verið fylgt undanfarin fjögur ár. Þá sveigju sjáum við í aukinni áherslu á niðurskurð á ýmsum innviðum samfélagsins um leið og almenningi er afsalað tekjum eins og við sáum strax í sumar þegar horfið var frá hækkun á sérstöku veiðigjaldi og horfið frá ýmsum öðrum tekjuöflunaraðgerðum.

Hér horfum við framan í niðurskurðarfjárlög þar sem meiri áhersla er lögð á skattalækkanir sem koma öðrum hópum samfélagsins til góða. Þessi fjárlög snúast því ekki eingöngu um debet og kredit, þau snúast líka um hugmyndafræðilega breytingu sem sú ríkisstjórn sem nú situr stendur fyrir, breytingu til hægri. Það þarf öllum að vera ljóst þegar við greiðum atkvæði um fjárlagafrumvarpið þó að á því hafi orðið nokkrar umbætur í meðförum Alþingis og ekki síst núna á lokametrunum.