143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Samfylkingin leggur hér fram tillögur til að verjast aukinni misskiptingu og sýnir fram á að við höfum efni á að gera betur, bæði fyrir láglaunafólk og fyrir fólk sem býr við fátækt í öðrum löndum. Hér er þess vegna tillaga um að taka út skatta á nemendur í formi skólagjalda og leggja þá peninga beint til háskólans. Þess vegna er hér sett inn ákvæði um að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið. Það eru teknir út sjúklingaskattar en tryggt að tekjurnar fari til Landspítalans. Og þrátt fyrir að það séu gríðarlega mikilvægar tillögur í frumvarpinu í heild um hækkanir til heilbrigðisstofnana teljum við að nauðsynlegt sé að gera enn betur og flytjum tillögu um slíka hækkun.

Ég vona að þingheimur sjái tækifærin í því að gera enn þá betur en kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og greiði þessum tillögum atkvæði.