143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum hér í Samfylkingunni að gera ríkisstjórninni tilboð um að taka þátt í því að snúa af braut niðurskurðar á hagvaxtarskapandi verkefnum eins og Rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóði.

Það hefur verið sýnt fram á það aftur og aftur og aftur að hver króna sem fer út úr þeim sjóðum skilar sér margfalt til baka í tekjum fyrir ríkissjóð þannig að það er galin ráðstöfun að fara í skarpan niðurskurð á sjóðunum.

Við erum líka í þessum tillögum að bjóða ríkisstjórninni upp á að snúa af braut niðurskurður á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna þess að í orði er því haldið fram að taka þurfi betur á móti erlendum ferðamönnum og tryggja að ágangur á náttúruna verði ekki of mikill vegna fjölda ferðamanna sem hingað koma, en á borði skera menn niður Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem hefur einmitt það hlutverk. Það er ekkert að marka ríkisstjórnina. Við sjáum það í dag í þessari atkvæðagreiðslu.