143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða tillaga okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að halda áfram þeirri sókn sem síðasta ríkisstjórn lagði upp með til eflingar á rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu, markáætlun á sviði vísinda og tækni og til Rannsóknasjóðs. Við teljum afar bagalegt að ríkisstjórnin ætli að leggja upp með það að skerða framlög til þessara sjóða. Við teljum að það skipti miklu að byggja upp á þessu sviði, það sé þarna sem framtíðin liggur í okkar atvinnulíf. Við leggjum því til að bætt sé við 200 millj. kr. til markáætlunar á sviði vísinda og tækni og 265 millj. kr. til Rannsóknasjóðs til að halda í við þær áherslur sem lagðar voru af síðustu ríkisstjórn.