143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Einhverjum kynni að þykja það vera að bera í bakkafullan lækinn að leggja til frekari skerðingu á framlögum til utanríkisþjónustunnar, enda hefur hún orðið frekar illa úti í meðförum þessa fjárlagafrumvarps en hér erum við að leggja til lækkun á liðnum Sendiráð Íslands. Þarna erum við í raun og veru að gefa hæstv. utanríkisráðherra það ráð varðandi niðurskurð á liðnum að draga úr kostnaði við fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu um 60 millj. kr. Ég tel að það sé ráð sem utanríkisráðherrann ætti að þiggja með þökkum.

Einnig kemur undir 17. lið tillaga okkar um að draga úr kostnaði við svokallað loftrýmiseftirlit eða öllu heldur leggja það niður og það er í raun og veru af sömu ástæðum og við leggjum til niðurskurð á fastanefndinni í Brussel.