143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við leggjum hér til að fjárheimildir Fæðingarorlofssjóðs hækki um 555 millj. kr. á næsta ári en það nemur kostnaði við fyrsta áfanga af þremur af lengingu fæðingarorlofs í eitt ár. Við leggjum til fjármögnun í formi þess að 0,1% af tryggingagjaldsstofni bætist við það sem ríkisstjórnin ætlar Fæðingarorlofssjóði og mun það gera gott betur en að dekka þennan kostnað. Fæðingarorlofssjóður mun þá ganga talsvert minna á eigin fé en hann gerir ella.

Það verður að segjast að viðskilnaður ríkisstjórnarinnar við þennan málaflokk í fjárlagafrumvarpinu og tengdum frumvörpum er með miklum ólíkindum. Metnaðarleysið er algert. Lög um lengingu fæðingarorlofs í áföngum eru felld úr gildi og tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs leikinn þannig að hann kemst í þrot á tveimur árum að óbreyttu. Þetta er mikið metnaðarleysi og mikið áhyggjuefni fyrir þá sem bera þann málaflokk fyrir brjósti og vilja sjá einhverja uppbyggingu á því sviði á komandi árum. Það gerir greinilega ekki núverandi ríkisstjórn Íslands.