143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga endurspeglar þá áherslu sem við í Bjartri framtíð leggjum á mikilvægi þess að við fjárfestum rausnarlega í tækniþróun, nýsköpun, rannsóknum, grænum iðnaði, innviðum ferðaþjónustu og skapandi greinum. Hér er í rauninni lagt til að þau atriði sem við teljum vera þau veigamestu hvað þetta varðar í fjárfestingaráætlun sem var samþykkt á síðasta ári séu sett aftur inn.

Þessar fjárfestingar eru byggðar á miklum greiningum og eru líka byggðar á reynslu annarra ríkja. Við erum að tala hér um tekjur framtíðarinnar og við þurfum að hafa einhverja sýn á það hvernig við ætlum að afla tekna framtíðarinnar.

Hafi menn áhyggjur af fjármögnun þessara liða þá getum við t.d. nefnt það að bara það að hafa 14% skatt á hótelgistingu fjármagnar drjúgan hluta af þessu auk þess sem lítils háttar hækkun á veiðigjöldum í samræmi við fyrri áætlanir mundi fjármagna þetta líka. (Forseti hringir.) Svo legg ég áherslu á það að við erum að sjálfsögðu að tala um einhverja tekjuöflun í náinni framtíð.