143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til aukningu á ríkisútgjöldum á mörgum prýðilegum málum sem flest eru þess eðlis að við mundum gjarnan vilja leggja meira til. En sá galli er á að hér eru engar tekjur á móti. Ef þessar tillögur eru samþykktar þýðir það verulegan halla á fjárlögum. Það er áhyggjuefni að stjórnmálaöfl leggi hér til að við séum með halla á fjárlögum.

Vaxtagjöld á þessu ári eru sem samsvarar því að við mundum byggja nýjan spítala. Það er engin framtíð í því að borga meira í vexti. Ef við skilum ekki hallalausum fjárlögum þýðir það að það erfiða verkefni sem við fórum í núna verður enn þá erfiðara og engir fara verr út úr því heldur en þeir sem minnst mega sín í okkar þjóðfélagi.