143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað gaman þegar stjórnarliðar koma hingað og eru að rifna úr gleði yfir því að laga örlítið sitt eigið frumvarp sem kom þannig fram í haust að það átti að slá algerlega af uppbyggingu verknámshúss á Selfossi. (Gripið fram í: Vertu nú svolítið jákvæður.) Já, nú er ég mjög jákvæður. Ég er ekki frá því að það sé bara fundinn upp nýr lífsgleðielexír; að leggja bara fram nógu vont frumvarp og laga það svo aðeins og þá geta allir verið glaðir. [Hlátur í þingsal.] Vigdís Hauksdóttir gefur tóninn.

En auðvitað er til bóta að hér sé komin aftur inn einhver framkvæmdafjárveiting varðandi þetta brýna verkefni og ég gleðst yfir því og óska Sunnlendingum til hamingju með það. Ég styð þetta að sjálfsögðu þó að það sé miður að þetta hringl með málið sem og þessi nauma fjárveiting kunni að leiða til þess að lítið verði úr þessum fjármunum á næsta ári, en alla vega er þetta verkefni þó að komast eitthvað áfram.