143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér koma til atkvæða tillögur um niðurskurð á framlögum Íslands til þróunarsamvinnu til uppbyggingar í löndum sem eru fátækustu lönd heims. Ég verð að segja að af öllum þeim liðum sem hér eru þá svíður sérstaklega að sjá niðurskurð á starfsemi eins og Alþjóðabarnahjálparstofnuninni UNICEF um 21,7 millj. kr., Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem hefur reynst mjög mikilvægur og við höfum staðið okkur vel í, með niðurskurð upp á rúmlega 81 millj. kr., Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdbeitingu kvenna, UN Women, með tæplega 22 millj. kr. í niðurskurð og mannúðarmál og neyðaraðstoð upp á 32,5 millj. kr. Það er ekki mikill bragur á þeirri mynd sem hæstv. ríkisstjórn dregur upp af Íslandi í þessu samhengi.