143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Vissulega er erfitt að þurfa að skera niður. Einn hv. þingmaður sagði að þetta hefði aldrei gerst. Ekki man ég hvernig hv. þingmaður greiddi atkvæði árin 2009, 2010 og 2011 þegar hér var skorin niður þróunaraðstoð. Sá niðurskurður sem nú á sér stað er ekki eins mikill og hjá fyrri ríkisstjórn þegar við förum aftur til 2012. Meira var skorið af þessum lið 2010 og 2011 en nú er gert. Við vonumst að sjálfsögðu til að geta bætt við síðar en efnahagur okkar er bara með þeim hætti að við þurfum að taka þarna fjármuni eins og á mörgum öðrum stöðum. Ég bið menn um að fara varlega í að fullyrða að við höfum þegið meira en gefið. Ég er ekki viss um að það sé alveg rétt.

Hins vegar er ágætt að finna þann anda sem hér er gagnvart þróunaraðstoð og ég treysti þá á að þegar við förum að auka í, sem kemur vonandi eins fljótt og við mögulega getum, muni allir þingmenn styðja við það.