143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku sem er allt annar hlutur en niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar sem hæstv. ráðherra bar saman áðan. Hér er farin sú leið að leggja jöfnunargjald á raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna og jafna þannig dreifikostnað, en starfshópur sem var skipaður þverpólitískt skilaði af sér öðrum tillögum þar sem ákveðið var að leggja 10 aura á hverja kílóvattstund framleiddrar raforku. Þannig hefðu stóriðjan og álverin verið þátttakendur í að niðurgreiða dreifingu á raforku.

Núverandi ríkisstjórn kýs að sleppa þessum stóru aðilum þótt hún hafi sjálf lagt fram tillögu á síðasta þingi sem var samhljóða tillögu starfshóps þess efnis að stóriðjan og álverin væru líka í því að jafna dreifingu á raforku í kringum landið.

Þetta er viðsnúningur sem ég skil ekki.