143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er merkilegt að hlusta á stjórnarmeirihlutann sem er að tala um holt heilbrigðiskerfi eftir niðurrif á íslensku samfélagi áratugina þar á undan. Það er ástæða fyrir því, við vorum að glíma við að endurreisa íslenskt samfélag eftir hrun og gerðum margt sem við hefðum ekki þurft að gera ella.

Okkur ber að sjálfsögðu að fagna því sem er að gerast hér í dag, að við séum að endurreisa og setja mikinn pening í heilbrigðiskerfið. Við tökum því vel. Við buðum það að fara lengra, forgangsraða betur í þessu. Við skulum átta okkur á því að við fengum fjárlagafrumvarp sem í var niðurskurður um 1 milljarð í heilbrigðismálum þegar við komum hér inn í þingið, sem olli verulegum vonbrigðum á heilbrigðisstofnunum úti um allt land. Auðvitað ber að fagna því að hér koma til baka 4 milljarðar, þessi milljarður til baka og þrír til viðbótar. Niðurskurði hafði verið hætt og sett hafði verið fjármagn í tæki, í jafnlaunaátak, í S-merkt lyf og ýmislegt á þessu ári, þannig að við skulum tala um hlutina eins og þeir eru.

Við höfum valið að sitja hjá í frumvarpinu í heild en fögnum þeim skrefum sem hér eru stigin.