143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:16]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verið er að auka framlög til Kvennaathvarfsins milli umræðna, fara úr 46 millj. kr. í 56, þetta er aukning um 10 millj. kr. Þetta eru ekki háar upphæðir svona í heildarsamhenginu en skipta miklu máli varðandi þá starfsemi sem þarna á sér stað en á um þriðja hundrað konur og börn hafa dvalið í Kvennaathvarfinu það sem af er þessu ári.

Reksturinn hefur verið þungur. Þær hafa oft leitað í svokallaðan húsakaupasjóð sem þær hafa verið með. Hann er núna tómur þannig að nauðsynlegt er að bæta 10 millj. kr. við þannig að þessi rekstur sé tryggður til framtíðar.