143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar sveitarstjórnir hringinn í kringum landið komu á fund fjárlaganefndar þá blasti yfirleitt sami vandinn við og sömu umkvörtunarefnin. Eitt af þeim var að það vantar fjármagn á móti sveitarfélögunum til hjúkrunarheimilanna. Í vinnu fjárlaganefndar á milli 1. og 2. umr. skapaðist aukið svigrúm til að bæta þarna við, m.a. með aukinni aðhaldskröfu á aðalskrifstofu ráðuneytanna. Eins og kannski flestir vita var þar gerð aukin aðhaldskrafa upp á 5%. Þá er komið svigrúm til að setja 200 millj. kr. inn í þennan málaflokk og verður heilbrigðisráðherra falið að koma þessu fé með sem réttlátustum hætti út á hjúkrunarheimilin hringinn í kringum landið. Hér er því um upphafsskref að ræða til að mæta þeim vanda sem hjúkrunarheimilin standa almennt frammi fyrir.