143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og til atkvæðagreiðslu og vonast til að menn styðji hana almennt. Við þekkjum öll þann brýna vanda sem liggur á öllum þeim er hafa það verkefni að sjá um þá er þurfa á hjúkrunarrýmum að halda. Við vitum jafnframt að hægt er að nýta það húsnæði sem nú þegar er til staðar í hinum dreifðu byggðum og ég fagna því að nú eigi að fara í þetta.

Ég vek hins vegar athygli á því að þetta er tímabundið framlag og ráðuneyti heilbrigðismála mun vinna á þessu ári að því að koma með heildstætt plan um það hvernig á að taka á þessum verkefnum. Þetta er liður í því að leysa vanda spítalanna en þar er þegar fyrir fullt af einstaklingum sem bíða eftir því að komast í hjúkrunarrými.