143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í því ráðleysislega krafsi sem hófst hjá ríkisstjórninni milli umræðna til að reyna að finna leiðir til að komast út úr þeim vandræðum sem hún var búin að koma sjálfri sér í með niðurskurði í heilbrigðismálum var víða leitað fanga, m.a. í þessum lið, að skerða vaxtabætur. Því er haldið fram að þetta sé vandræðalaust því að þetta sé á hátekjufólk og það komi hvort sem er svo digur skuldaúrlausnapakki á nýju ári.

Hæstv. ríkisstjórn horfir algjörlega fram hjá því að það fólk sem keypti húsnæði eftir 2010 mun ekki fá neitt út úr þeim skuldalækkunarpakka sem fram undan er. Þetta fólk hefur gengið út frá því sem vísu að vaxtabætur, jafnvel á hátekjufólk, væru í því formi sem þær voru þegar þetta fólk keypti húsnæði sitt. (Gripið fram í: Var það …?) Nú er ríkisstjórnin hins vegar að búa til nýjan forsendubrest og það er að verða ljóst af hálfu þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að það er stöðugt verið að breyta leikreglunum og það er stöðugt verið að búa til ný vandræði og grafa (Forseti hringir.) undan samfélagslegri samstöðu um úrlausn þessara skuldamála. (Gripið fram í.)