143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér er afskaplega mikil ánægja að því að standa hér fyrir hönd fjárlaganefndar, held ég að ég geti sagt, þar sem öll nefndin flytur þá breytingartillögu að heimila að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn. Við höfum aðeins rætt þetta í þessum sal. Heimildin er komin inn fyrir þetta ár og næsta ár, hún féll út á þessu ári.

Svo minni ég á það enn og aftur að það er væntanlegt frumvarp þar sem þetta verður fellt inn í virðisaukaskattslög sem ég hvet þingmenn til að samþykkja. Þá þurfum við ekki að eiga við þetta innan heimildargreina ár hvert.

Ég fagna þessu svo sannarlega af því að þetta skiptir auðvitað miklu fyrir þá sem þurfa að leggja út þessa fjármuni, en hins vegar eru þetta afar litlar fjárhæðir hjá ríkissjóði.