143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara seinni hlutanum af því að hann er ferskari í huga mér þegar ég kem hingað upp, ég man ekki nákvæmlega tölurnar því að ég er ekki með frumvarpið frá því í sumar fyrir framan mig, en það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það var afsláttur á minni bátana og frítekjumark eða frígjaldsmark í rauninni fyrir veiðigjaldið hjá minni fyrirtækjunum í tillögum minni hluta atvinnuveganefndar í sumar.

Síðan er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er flókið að greina stöðu sjávarútvegsins til fulls út frá meðaltölum um afkomutölur og alveg hárrétt sem hann segir að afkoman í uppsjávarveiðunum hefur verið með slíkum eindæmum að það er orðinn mikill munur á milli hefðbundinna bolfisksfyrirtækja og uppsjávarfyrirtækja. Vandinn við allar aðferðirnar þegar menn leggja gjöld á eftir meðaltalsaðferðum er auðvitað sá að þótt maður standi með annan fótinn í eldi og hinn í ís þá hefur maður það ekki að meðaltali gott.

Þetta er hins vegar útfærsluatriði, og þar komum við aftur að veiðigjaldinu sem ég hef alltaf haft áhyggjur af, og við stöndum frammi fyrir því núna að við erum að vinna með óþægilega gamlar tölur, sérstaklega í tilviki bolfisksins þar sem afurðaverð hefur farið lækkandi. Þetta eru hlutir sem er kannski of langt mál að fara út í núna en ég hef ýmsar hugmyndir um hvernig væri hægt að leggja þetta veiðigjald á með skynsamlegri hætti og láta það þá sérstaklega ráðast af verði á veiðiheimildum á almennum markaði til þess að þjóðin deildi betur kjörum með sjávarútveginum og álögurnar minnkuðu líka eftir því sem hagur fyrirtækjanna versnaði.

Að því er varðar leigutímann á makrílnum er það einfaldlega útfærsluatriði og ég hef (Forseti hringir.) ástæðu fyrir að vilja ekki binda mig niður á (Forseti hringir.) einhverja tölu þar. Ég held að við deilum þeirri sýn, (Forseti hringir.) hv. þingmaður og ég, að mikilvægt sé að fyrirtækin geti haft ákveðinn fyrirsjáanleika um (Forseti hringir.) þær heimildir sem þau hafa til ráðstöfunar.