143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hlustaði eftir svörum hans við spurningum hv. þingmanns sem spurði út í veiðileyfagjöldin og ég verð að viðurkenna að ég er ekki miklu nær. Mér finnst það svolítið sérstakt að fara af stað með svona mikla skattheimtu og ekki búið að útfæra meira en svo að skipa á nefnd til að skoða það.

Eins og hv. þingmaður veit hef ég fylgst svolítið grannt með þessum tillögum og þá sérstaklega því sem snýr að skattaeftirliti. Hv. þingmaður skautaði nú frekar létt yfir það í framsögu sinni því að hv. þingmaður er hér að tala um 3 þúsund milljónir, það er ekki lítið. Nú er búið að stórauka framlög til skattrannsóknarstjóra, ég held að það sé 103% aukning frá 2006–2012, við getum séð það í ríkisreikningi — og meira ef við tökum fram á árið í ár. Svo sannarlega hafa menn heldur ekkert slegið af varðandi ríkisskattstjóra því að búið er að styrkja það embætti.

Við erum öll sammála um það, held ég, að mjög mikilvægt er að uppræta svarta atvinnustarfsemi. En er hv. þingmaður ekki með neitt meira í höndunum en það sem hann nefndi? Því að þetta eru ekki 3 milljónir, þetta eru ekki 30 milljónir, ekki 300, þetta eru 3 þúsund milljónir sem hv. þingmaður ætlar að sækja. Samfylkingin er nýkomin úr fjármálaráðuneytinu og ég ætla Samfylkingunni ekki annað en að hafa reynt að vinna þar samviskusamlega að því að sækja fjármuni og uppræta svarta atvinnustarfsemi. Hvað meira hefur hv. þingmaður í höndunum til að ætla það að hægt sé að sækja 3 þúsund milljónir þegar það var ekki hægt fyrir nokkrum mánuðum þegar Samfylkingin var í fjármálaráðuneytinu?