143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan í ræðu minni er auðvitað mjög erfitt að áætla nákvæmlega hversu mikið er hægt að hafa upp úr átaki af þessum toga. En ef horft er á það sem ríkisskattstjóri hefur verið að segja um umfang hins svarta hagkerfis þá er það miklu, miklu, miklu meira en sem þessu nemur.

Maður verður að gefa sér einhverjar forsendur. Hv. þingmanni finnst þetta mikið og hann segir: Þetta eru ekki 3 milljónir, þetta eru ekki 30 og þetta eru ekki 300. Ég nefndi honum eitt dæmi áðan sem ég þekki sjálfur úr minni tíð sem félagsmálaráðherra þegar við náðum 800 milljóna árangri í glímu við svarta atvinnustarfsemi til að bregðast við bótasvikum innan Vinnumálastofnunar. Það var fjögurra manna deild sem vann í því verkefni og skilaði 800 milljónum á innan við ári. Þetta eru ekki tölur sem ég er að taka úr lausu lofti, þetta eru tölur sem hinir grandvöru og stórgagnrýnu embættismenn fjármálaráðuneytisins, sem alltaf voru að kalla eftir meiri niðurskurði, tóku gildar og tóku gildar sem raunverulegan sparnað vegna þess að þeir töldu ljóst að þarna hefði þeim árangri verið náð. Ég get því bent á þetta dæmi. Það var miklu afmarkaðra verkefni en við leggjum hér upp með. Við tökum til hliðar fjárveitingar upp á 100 milljónir í verkefnið. Það mætti hugsa sér að hafa það meira, við erum til viðræðu um það. En umfang svartrar atvinnustarfsemi í landinu að áliti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra er svo gríðarlegt að þetta er bara lítill hluti af því.