143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að erfitt sé að áætla nákvæmlega umfangið. Ég held að það sé alveg rétt, þess vegna er þetta nú svart. Ef það væri öðruvísi væri auðvelt að meta það.

Eftir að hafa hlustað á bæði tillögu hv. þingmanns og svar hans þá er í rauninni bara tvennt sem kemur til greina, þ.e. að síðasta ríkisstjórn, með hæstv. fjármálaráðherra Samfylkingarinnar í broddi fylkingar, hafi ekki lagt áherslu á að vinna í þeim málum, það er bara þannig. Hv. þingmaður er búinn að fara yfir hvers konar gríðarlegt umfang þetta er og öll teikn á lofti, þarna eru 3 þúsund milljónir. Ég veit að hv. þingmaður vill hafa hallalaus fjárlög, hann er ekki að taka neina áhættu í þessu, ég trúi því ekki. Hann ætlar að sækja 3 þúsund milljónir. Annaðhvort lagði Samfylkingin og síðasta ríkisstjórn enga áherslu á þetta eða hitt að á síðustu sex mánuðum hafi orðið slík stökkbreyting og slík aukning í svartri atvinnustarfsemi að það skipti alla vega tugum milljarða, kannski ekki tugum en alla vega tug milljarða á nokkrum mánuðum. Það getur bara verið annað hvort. Annaðhvort hafa þeir bara horft á þetta og ekki nennt að hlusta á ríkisskattstjóra og öll þau teikn sem voru á lofti þarna og ekki gert neitt í því eða þá að risasprenging hafi orðið í svartri atvinnustarfsemi núna á örskömmum tíma.

Virðulegi forseti. Ég held að fróðlegt væri að fá að vita: Hvort var það? Sinnti Samfylkingin ekki skatteftirliti, þrátt fyrir öll þau teikn sem hv. þingmaður er að fara yfir núna, eða erum við að sjá grundvallarbreytingu á örfáum mánuðum frá því að allt var uppi á borðum yfir í það að sjá þetta steypast (Forseti hringir.) ofan í svart hagkerfi?