143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 og ætla að fara yfir helstu breytingar í meðförum nefndarinnar.

Fyrst skal nefna breytingartillögu frá fjárlaganefnd þar sem gerð er tillaga um 240 millj. kr. framlag til að mæta útgjöldum vegna greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda sem tryggð er innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Á móti er lagt til að fallið verði frá framlögum ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða á árinu. Jafnframt eru lagðar til þær breytingar á tekjuhlið að hlutdeild Atvinnuleysistryggingasjóðs í tekjum af tryggingagjaldi aukist og hlutdeild starfsendurhæfingarsjóða falli brott. Ég held að þetta mál skýri sig sjálft. Það hefur verið mikið í umræðunni bæði innan þings og utan og ánægjulegt að sjá samstöðu innan hv. fjárlaganefndar um meðferð þess máls.

Síðan eru önnur mál sem breytingar eru lagðar til á. Eins og við þekkjum sem höfum fylgst með þessari umræðu voru í fyrsta lagi gerðar við það athugasemdir, fyrst af hálfu hv. meiri hluta fjárlaganefndar, að ýmsar millifærslur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti væru ekki í anda fjárreiðulaga og verklagsramma fjárlagagerðar. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ræddu þetta mál mikið og niðurstaðan er að gerð verður tillaga um að þessu verði breytt á þann veg að það sé meira í anda fjárreiðulaganna og í samræmi við verklagsramma fjárlagagerðar. Það skal þó tekið fram að þær breytingar kalla ekki á útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði. Þarna var fyrst og fremst um það að ræða að menn töldu að þarna væri verið að setja í fjáraukalagafrumvarpið fjárheimildir sem væru nýttar á árinu 2014 og það væri ekki í anda fjáraukalaganna fyrir árið 2013. Fellst meiri hluti fjárlaganefndar á þessi sjónarmið og gerir tillögur um breytingar hvað það varðar.

Í öðru lagi er lagt til að falla frá tölulið 6.20 þar sem óskað var eftir heimild til að leigja húsnæði í Perlunni af Reykjavíkurborg fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Leigusamningurinn var undirritaður 13. mars sl., óuppsegjanlegur til 15 ára og var þá miðað við að greiðslur hæfust ári síðar. Ekki var leitað tilboða við gerð leigusamningsins og því brotin jafnræðisregla sem sett er í lögum um opinber innkaup. Ekki var heldur leitað eftir sérfræðiaðstoð frá Ríkiskaupum eða öðrum ríkisstofnunum sem starfa á þessu sviði. Árlegar verðtryggðar leigugreiðslur hefðu numið að minnsta kosti 83 millj. kr. á heilu ári, þ.e. meira en 1,2 milljörðum kr. á leigutímanum. Þá er eðli málsins samkvæmt ekki gert ráð fyrir verðtryggingu heldur er það bara framreiknað. Áætlað var að uppsetning safnsins kostaði 500 millj. kr. og var það í fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Árlegur rekstrarkostnaður var áætlaður 130 millj. kr. og það er óhætt að segja að þessi samningur er ekki hagstæður fyrir skattgreiðendur og hefur í rauninni furðulítið verið í opinberri umræðu miðað við það hversu alvarlegt þetta mál er. Meiri hluti fjárlaganefndar gerði tillögu um að fallið yrði frá þessum tölulið og að þessi heimild yrði þar af leiðandi tekin út. Það skal tekið fram að þingið þarf að taka afstöðu til þess. Í leigusamningnum sem undirritaður var rétt fyrir síðustu kosningar var gerður áskilnaður um það að hv. Alþingi þyrfti að staðfesta samninginn og er lagt til að það sé ekki gert.

Í þriðja lagi var mikið rætt um að ríkistekjur, svokallaðar markaðar tekjur, sem komu til vegna útboðs á tíðniréttindum færðust til fjarskiptasjóðs eins og lögboðið er. Í upphaflegu frumvarpi var í leiðinni gerð tillaga um að það yrði samþykkt sem útgjöld til að byggja upp fjarskiptakerfi sem einkafyrirtæki munu ekki ráðast í vegna markaðsforsendna og þá er sérstaklega vísað til hinna dreifðu byggða. Í það hefur verið farið og settir um 2,5 milljarðar á undanförnum árum en ég held að samstaða sé um að betur megi ef duga skal hvað það varðar. Meiri hluti fjárlaganefndar taldi svolítið sérstakt að vera með heimild um að festa í þessum fjáraukalögum þessa upphæð þar sem sýnt er að fjarskiptasjóðurinn mun í það minnsta þurfa að fá þá fjármuni til viðbótar. Það er alveg ljóst að allir fjármunir sem fara í fjarskiptasjóðinn fara fyrst í að greiða samning sem fjarskiptasjóðurinn er með við Farice sem gengur út á að fjarskiptasjóðurinn ber allt tap af Farice. Á sínum tíma voru gerðar áætlanir. Ef ég man rétt var þessi samningur gerður 2012 og hann gengur út á að allt tap af Farice ásamt 5% ávöxtun á fjárfestingu eigendanna — og þar er ríkið einn þriðji eigandi, á um 30%, Arion banki er stærsti hluthafinn og svo Landsvirkjun — lendir á ríkinu sem þarf að greiða það og þessa ávöxtun á framlagi eigenda. Í rekstraráætlunum var gert ráð fyrir góðum hagnaði árið 2014 þegar farið væri að selja gagnaverum sem ættu að vera hér á landi.

Á þessum tíma, 2012–2014, er búið að setja um 1,2 milljarða af skattfé í þennan sjóð beint úr fjarskiptasjóði sem er skuldbundinn til að leggja þessu fé. Þeir fjármunir sem fara í fjarskiptasjóð fara í Farice og að auki hvílir ríkisábyrgð á 7 milljarða lántökum í tengslum við Farice-samninginn. Það er því alveg ljóst að þetta verkefni felur í sér mjög mikla áhættu fyrir ríkissjóð og þarna erum við með stóran undirliggjandi vanda. Það skiptir svo sem ekki máli þó að gerð sé tillaga um að þetta fari í þessi verkefni. Þetta kallar á 195 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Það hefur hins vegar verið mikil krafa í þinginu og sérstaklega hjá hv. stjórnarandstöðu að þessi leið verði farin og fellst meiri hlutinn á það. Þó skal vakin athygli á því að meiri hlutinn vakti athygli á því á sínum tíma að þessar millifærslur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu væru ekki í anda fjárreiðulaganna þar sem gert var ráð fyrir útgreiðslum á árinu 2014. Nákvæmlega það sama á við þessa afgreiðslu ef hún verður svona. Þetta er ekki í anda fjárreiðulaganna nema fjarskiptasjóður nýti þessar 195 millj. kr. á árinu 2013. Núna er 18. desember og að því gefnu að fjarskiptasjóður greiði þetta ekki út á næstu 12 dögum, fari í fjárfestingu á næstu 12 dögum, í fjarskiptakerfi í hinum dreifðu byggðum er þetta sem við erum að fara að gera núna ekki í anda fjárreiðulaganna. Allir þurfa að vera meðvitaðir um það. Það er hins vegar vilji þingsins eftir því sem ég best veit miðað við umræðuna eins og hún er.

Ef við göngum fram eins og við ætlum ákváðum við annars vegar að fara eftir anda fjárreiðulaganna, svo maður taki ekki dýpra í árinni, og taka millifærslurnar til mennta- og menningarmálaráðherra til baka í nafni þess. Það virðist vera ágætissamstaða í þinginu um það, en svo er samstaða í þinginu um að fara gegn anda fjárreiðulaganna hvað þetta varðar svo menn séu algerlega meðvitaðir um það. Auðvitað hljóta menn að vera meðvitaðir um það sem kalla hvað mest eftir þessu, krefjast þess og fara fram á það, að þetta fer gegn anda fjárreiðulaganna — nema menn ætli að eyða þessum fjármunum milli jóla og nýárs. Það er einn virkur dagur til að eyða 195 milljónum og ég vona að engum detti það í hug. Menn verða algjörlega að vera með opin augu fyrir því að farið hefur verið fram á það að fara gegn anda fjárreiðulaganna. Það hefur verið alveg skýr krafa stjórnarandstöðunnar í þessu máli en ekki í hinu málinu. Við komum hérna með tillögur til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar.

Annars vegar segir stjórnarandstaðan: Við megum ekki fara gegn anda fjárreiðulaganna þegar kemur að mennta- og menningarmálum en við verðum að fara gegn anda fjárreiðulaganna þegar kemur að fjarskiptasjóðnum. Menn þurfa bara að vera algerlega meðvitaðir um þetta.

Síðan leggur meiri hlutinn til breytingar á fjármögnun í sjóðstreymi og lækkun á heimild erlendrar lántöku ríkissjóðs úr 128 milljörðum í 108 milljarða. Slíkar hreyfingar eru hefðbundnari í fjáraukalögum eftir því sem ég best veit.

Að lokum er hér líka breyting sem snýr að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar er gerð tillaga um 35 millj. kr. sérstakt einskiptisframlag í því skyni að leiða til lykta samkomulag sem Bolungarvíkurkaupstaður og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerðu um fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins í ársbyrjun 2009. Hér er um að ræða beiðni og erindi frá innanríkisráðherra þar sem verið er að klára þetta mál sem er búið að standa þarna út frá í þennan tíma. Hér er um að ræða einstakt tilfelli sem er ekki fordæmisgefandi varðandi önnur fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég hef í örstuttu máli gert grein fyrir því hvað felst í breytingartillögunum sem hér eru lagðar fram. Þær eru unnar þannig að sem best sátt geti verið um þær. Svo sannarlega hefur verið hlustað eftir sjónarmiðum hv. stjórnarandstöðu svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hins vegar er lítið samræmi á milli prinsippa hvað þetta varðar og ég held að það sé mjög mikilvægt að þingheimur og þjóð séu algerlega meðvituð um það.