143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur farið fram mikil umræða um þennan samning og gjörning á vettvangi hv. fjárlaganefndar. Ef það er eitthvað rangt sem þarna kemur fram er mikilvægt að það sé leiðrétt. Ég hef hins vegar staðfestingu fyrir öllu sem þarna er sagt og hef sjálfur kynnt mér þetta mál vel. Hefur þetta mál vakið hjá mér mikla furðu og þarna er svo sannarlega ekki gætt hagsmuna skattgreiðenda, því fer víðs fjarri enda sjá menn það þegar þeir skoða þessar tölur. Sömuleiðis finnst manni vægast sagt sérkennilegt að þetta sé hluti af svokallaðri fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnar.

Hv. þingmaður lýsir stöðu Náttúruminjasafnsins eins og hún er, það er búið að vera á hrakhólum í mjög langa tíð. Ég held að flestir vildu sjá myndarlegt náttúruminjasafn á Íslandi en það er ekki hægt að kosta til hverju sem er, allra síst á þessum tímum. Þó að verkefni hv. fjárlaganefndar sé víðfeðmt og mikið held ég að það sé ekki hlutverk hennar að finna húsnæði eða leggja upp áætlanir um byggingu á því. Ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni að eyða fjármunum í það, jafn gott verkefni og þetta er. Það væri æskilegra að hægt væri að gera þetta þannig að skattgreiðendur þyrftu ekki að bera þennan kostnað sem hér er lagt upp með. Frumkvæði að slíku teldi ég eðlilegt að væri hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Að vísu hafa mörg sveitarfélög boðið ókeypis húsnæði og ýmislegt af því að þau sjá hag sinn í þessu, en ég held hins vegar að það sé ekki rétt að hv. fjárlaganefnd fari í slíka vinnu. Sveitarstjórnarmenn hafa haft samband við mig og boðist til þess að hýsa safnið í góðu húsnæði með (Forseti hringir.) mjög litlum tilkostnaði.