143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ræðu hjá framsögumanninum Oddnýju G. Harðardóttur. Hún kom aðeins inn á þennan samning sem er nú verið að færa til baka, reyndar ekki samning heldur tillögu um 242,2 milljónir hjá menntamálaráðuneytinu.

Mig langar aðeins að rifja upp hvernig þetta kom inn í fjáraukalögin. Meiri hluti fjárlaganefndar gerði verulegar athugasemdir við þennan gjörning á sínum tíma, hélt langan fund á laugardegi með allri nefndinni þar sem farið var yfir það hvernig væri best að koma þessu fyrir því að menntamálaráðuneytið átti á ákveðnum liðum uppsafnað eigið fé og hugðist færa það yfir á árið 2014.

Eftir miklar umræður í fjárlaganefnd sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í, og sat þennan fund, varð niðurstaða nefndarinnar að þetta væri líklega besta leiðin til að fara með þetta fé eins og kom fram í frumvarpinu, m.a. vegna þeirra sjónarmiða að þetta lagaákvæði ætti ekki að vera eyðsluhvetjandi fyrir ráðherra hvers tíma, þ.e. að klára hvern útgjaldaflokk fyrir sig sem hefði komið fram í fjárlögum. Niðurstaða nefndarinnar á sínum tíma varð því sú að þetta væri líklega besta leiðin og meiri hlutinn fór fram með mjög harðort nefndarálit á sínum tíma þar sem bent var á að það yrði kannski viðurkennt í þetta sinn en ekki liðið aftur af fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Því miður er það eins og oft áður að minni hlutinn, og þá sérstaklega hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, notaði þetta sem pólitískt bitbein í umræðunum. Niðurstaðan varð að meiri hlutinn tók þá ákvörðun að taka þetta út á milli umræðna (Forseti hringir.) og þetta er sagan í þessu máli. Sannleikurinn er sagna bestur.