143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessu andsvari og ætla því að endurtaka það sem ég sagði um þennan lið:

„Að beiðni minni hlutans var leitað álits Ríkisendurskoðunar á fyrirætlunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að flytja ónotaðar fjárveitingar á fjárlagalið sem notaður yrði á nýju fjárlagaári.“

Hvað er rangt við þetta? Minni hlutinn bað um að Ríkisendurskoðun kæmi til að segja álit sitt.

„Ríkisendurskoðun staðfesti þann skilning minni hlutans að það væri ekki í samræmi við anda laga um fjárreiður ríkisins að nota fjáraukalög með þeim hætti. Því hefur meiri hlutinn dregið til baka þær hugmyndir sem í millifærslunum fólust. Liðurinn Framkvæmd nýrrar skólastefnu er því felldur niður og framlög til námskrárgerðar, framhaldsfræðslu almennt og sérstakra fræðsluverkefna bakfærð.“

Þetta held ég að sé sá kafli í þessu nefndaráliti þar sem bara nákvæmlega engin pólitík kemur fyrir enda er um að ræða mál sem allir flokkar ættu að vera sammála um, að vanda til verka og fara eftir fjárreiðulögunum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, eftir að við vorum búin að taka ítarlega umræðu um málið var meiri hlutinn sammála þessu líka og það kemur fram í nefndaráliti hans. Auðvitað heldur meiri hlutinn því á lofti sem honum finnst um málið en minni hlutinn dregur fram sína hlið á því. Aldeilis ætlaði ég ekki að nota millifærslur á fjárlagaliðum sem pólitískt bitbein. Þá bara skil ég ekki pólitík, virðulegi forseti, ef þessi stutta greinargerð um málið var hlaðin pólitík.