143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get kannski ekki að því gert þó að hv. þingmaður skilji ekki alveg pólitíkina en mig minnir að hún sé búin að vera lengur á þingi en ég. En það er akkúrat þetta sem ég sagði í ræðustól fyrir örfáum dögum, hálfsannleikur er næsti bær við að segja ósatt. Meiri hlutinn var meðvitaður um það allan tímann að þetta væri á mörkunum að ganga í fjáraukalögum vegna eðlis fjáraukalaga. Fjáraukalög eru til þess að mæta mjög óvæntum útgjöldum á því rekstrarári sem verið er að loka fyrir áramót ár hvert. Þess vegna gerði minni hlutinn meiri háttar athugasemdir við þessa fyrirætlun og svo fór að það sem fram kom undir þessum lið í áliti meiri hlutans var uppistaðan í ræðum allra þingmanna hér þegar fjáraukalögin voru til umræðu.

Að sjálfsögðu erum við stolt af því að hafa getað bent á að þarna væru veikleikar. Þegar svo kom beiðni um að fá Ríkisendurskoðun á fundinn sem eðlilegt er vegna þess að Ríkisendurskoðun á sérstaklega að taka til umfjöllunar og gefa álit á fjáraukalögum samkvæmt lögum þó að fyrri ríkisstjórn hafi verið búin að brjóta það samkomulag á bak aftur eins og kannski annað sem hún kom nálægt á síðasta kjörtímabili — þá var orðið svo kalt á milli fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar að þáverandi formaður fjárlaganefndar hafnaði því að Ríkisendurskoðun hefði aðkomu að síðasta fjáraukalagafrumvarpi.

Þetta var sem sagt málið og svo þegar þetta er komið í ljós kynntum við að sjálfsögðu þessa breytingartillögu en það var á engan hátt einhver uppfinning hjá minni hluta fjárlaganefndar að þetta var sett inn með þeim hætti sem við leggjum til og birtist hér í þessari lokaumferð.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór ágætlega yfir þetta. Svo má alveg líta í gegnum fingur sér varðandi fjarskiptasjóð hjá minni hlutanum (Forseti hringir.) því að þetta eru afskaplega sambærileg mál.