143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Markaðar tekjur eru þannig, fyrir þá sem ekki þekkja til, að samkvæmt lögum á ýmislegt að fara til ákveðinna verkefna. Síðan hefur það verið lenska að það er undir hælinn lagt hvernig það er gert, þ.e. þótt eitthvað eigi að fara í Ríkisútvarpið hefur það alla jafna ekki gert það, svo dæmi sé tekið. Menn leita leiða til þess að taka hluta af þessum mörkuðu tekjum og setja í ríkissjóð. Það hefur gerst samfleytt frá árinu 2007, ef ég man rétt, í það minnsta frá 2009. Sama máli gegnir um ýmis gjöld sem tengjast vegagerð og öðru slíku að menn hafa almennt ekki — ég veit ekki hvort það heyrir til undantekninga, ég hef ekki gert úttekt á því hvort markaðar tekjur fara nákvæmlega í það sem þær eru markaðar fyrir. Það er allur gangur á því og við höfum rætt það mikið í hv. fjárlaganefnd þegar við höfum rætt frumvarp um markaðar tekjur. Þó að sumar stofnanir virðist stundum fá stóran hluta af þessum mörkuðu tekjum beint til sín þá er allur gangur á því. Við brjótum iðulega það prinsipp. Ég er alla vega þeirrar skoðunar að þetta sé óeðlilegt kerfi sem er hvorki gagnsætt né eðlilegt og það er allra síst lýðræðislegt. Ég tel að við eigum að hætta með markaðar tekjur að mestu leyti. Ég tel það mun eðlilegri og lýðræðislegri leið að skattar og gjöld — því að allt eru þetta skattar og gjöld, markaðar tekjur koma ekki til bara af himnum ofan heldur vegna þess að við ákveðum það — fari í ríkissjóð og síðan útdeilum við því til hinna ýmsu verkefna og stofnana.