143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Þau skýra ýmislegt og styrkja í raun og veru það sem ég var að segja, að umræðan um þetta mál hefði verið á þeim nótum að menn hefðu kannski gengið of langt, sérstaklega vegna þess að tilskipunin geri ráð fyrir því að ná til dreifiveitna sem hefðu 100.000 íbúa eða fleiri, en hér var þetta innleitt þannig að menn fóru með þetta alveg niður í 10.000. Ég velti líka fyrir mér hver afstaða þingmannsins sé til þess af því ég heyri að hann segir hér núna að það kynni vel að vera að menn þyrftu að skoða hvort ætti að afnema þessa raforkutilskipun eða gera ráðstafanir til þess að fá frá henni einhverjar varanlegar undanþágur. Ég veit ekki hvort slíkt er í boði. Ég er ekkert alveg viss um að það sé í boði eftir á, það hefði kannski verið möguleiki ef það hefði verið gert strax í upphafi. Ég skal ekki fullyrða það, en vil gjarnan heyra frá þingmanninum hvort hann telur að það sé eitthvað sem eigi að skoða af alvöru. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið betra að bíða með þessa lagasetningu eða hafa þetta ástand sem verið hefur eitthvað lengur.

Það kann vel að vera rétt hjá þingmanninum að kannski hefðu menn átt að taka þá prinsippafstöðu fyrir einhverju síðan, en það er líka rétt að Orkuveitan óskaði eftir tíma til þess að fá að skoða sín mál eftir hremmingarnar sem hún lenti í. Það kemur mér dálítið spánskt fyrir sjónir að hún skuli núna vilja fara þessa leið af því það var ekki endilega efst á óskalistanum á sínum tíma, en þær aðstæður kunna að hafa breyst og afstaða hennar. Ég hef alla vega og við í mínum þingflokki, miklar efasemdir um að hún sé að fullnægja þessari raforkutilskipun (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hér er gert.