143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. formanni atvinnuveganefndar, Jóni Gunnarssyni, fyrir kynningu hans á málinu. Ég hef látið mig málið nokkuð varða af ástæðum sem ég fór í í umræðum um það fyrr á þessu þingi. Það er ekki hægt að segja annað en að hv. þingmenn í hv. atvinnuveganefnd hafi tekið mið af varnaðarorðum mínum.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram breytingartillaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rætt var um 2. gr. frumvarpsins þar sem starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur er afmörkuð. Í 2. mgr. 2. gr. er kveðið á um „aðra starfsemi“ fyrirtækisins, þ.e. að fyrirtækið geti stundað aðra starfsemi sem geti nýtt rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækjanna, sem og iðnþróun og nýsköpun. Meiri hlutinn leggur til að því verði bætt við 2. mgr. að slík önnur starfsemi verði að tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Meiri hlutinn telur að í kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur felist rekstur vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu sem og sala og framleiðsla á rafmagni og heitu og köldu vatni. Framangreind atriði eru talin til kjarnastarfsemi í eigendastefnu fyrirtækisins sem var samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkurborgar 19. júní 2012, bæjarstjórn Akraneskaupstaðar 12. júlí 2012 og sveitarstjórn Borgarbyggðar 21. júní 2012.“

Það er enginn vafi á því að þetta er miklu betra svona. Ég vonast til að þetta nái þeim markmiðum sem ég lagði upp með. Við þekkjum hætturnar. Þær hafa kostað Orkuveitu Reykjavíkur gríðarlega fjármuni og þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá þetta enn þá ákveðnar í lagatextanum fær maður ekki alltaf allt sem maður vill. Þetta snýst að vísu ekki um mig heldur um það að við göngum þannig frá lagaumgjörðinni að Orkuveita Reykjavíkur geti rækt sitt hlutverk og að það lágmarki hættuna á því að það sama gerist og áður.

Ég vil þakka hv. atvinnuveganefnd og formanni hennar, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir að ganga svona til verka og ég vonast til þess, ef þetta nær fram að ganga á þennan hátt, að við þurfum ekki að sjá hluti aftur sem við höfum séð í sögu Orkuveitunnar og hafa kostað fyrirtækið milljarða eða jafnvel tugi milljarða og valdið henni miklum skaða. Kjarnastarfsemin, rekstur vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu sem og sala á framleiðslu á rafmagni og heitu og köldu vatni, er mjög merkileg starfsemi sem er mjög mikilvægt að einbeita sér að. Það eru líka næg tækifæri í þeim þætti og er held ég góð sátt um að fyrirtækið einbeiti sér að kjarnastarfseminni en villist ekki inn á aðrar brautir sem hafa ekki gengið vel og samræmast alls ekki hlutverki fyrirtækisins.