143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson aðeins út í þetta mál og afstöðu Vinstri grænna. Hvað hefur breyst hjá þingflokki Vinstri grænna í þessu máli á þeim skamma tíma sem er liðinn síðan flokkurinn átti sæti í ríkisstjórn?

Eins og ég kom inn á áðan í ræðu minni var þetta mál opnað í þrígang undir forgöngu ríkisstjórnar sem hv. þm. átti aðild að á síðasta kjörtímabili, þ.e. að fresta gildistökunni gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur vegna erfiðra aðstæðna. Ég minnist þess ekki að nokkuð af þeirri umræðu sem nú er borin á borð hafi átt sér stað á þeim tíma. Hvers vegna ekki? Hvers vegna beittu Vinstri grænir sér ekki fyrir því í síðustu ríkisstjórn að þessi vinna færi af stað fyrst þeir hafa svona skýra afstöðu í málinu?

Það var alger samstaða í hv. atvinnuveganefnd á því kjörtímabili um að veita þann frest sem veittur var, tveggja ára frest árið 2011, og að hann væri endanlegur. Menn voru reyndar í miklum efa um að það ætti að gera það en þá komu ekki fram neinar athugasemdir frá fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni um málið. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hverju það breytir að þessi tilskipun verði mögulega ekki látin gilda gagnvart Orkuveitunni. Er það skilningur þingmannsins að Orkuveita Reykjavíkur, þar sem lögin gildi ekki um hana og uppskiptingin gildi ekki um hana, hafi sterkari samkeppnisstöðu á þessum markaði í dag? (Forseti hringir.) Er það réttur skilningur minn að hv. þingmaður kjósi að viðhalda sterkari samkeppnisstöðu (Forseti hringir.) Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart öðrum orkufyrirtækjum í landinu?