143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að þessi mál voru opnuð á síðasta kjörtímabili með framlengingu af þessum sérstöku ástæðum. Það var að sjálfsögðu rætt m.a. í mínum þingflokki á þeim tíma hvort það væri fullnægjandi og rétt skref á þeim tíma eða hvort menn vildu beita sér fyrir því að ganga alla leið, ef maður getur orðað það þannig. Þau sjónarmið voru að sjálfsögðu uppi og vógust á. Uppleggið frá Orkuveitunni á sínum tíma var að fá þessa frestun og það varð niðurstaðan í okkar hópi og á vettvangi síðustu ríkisstjórnar að framlengja frestinn á þann hátt sem gert var.

Spurningin um það hvort eitthvað hafi breyst, þá hefur afstaða okkar til þessa grundvallar í raun og veru alls ekki breyst. Við teljum að það hafi verið rangt að innleiða þessa raforkutilskipun eins og gert var og við teljum að affarasælast væri að reyna að vinda ofan af henni. Til þess þarf auðvitað að verða pólitískur meiri hluti. Hann var ekki á sínum tíma þegar tilskipunin var innleidd en mér hefur fundist í umræðunni og í skoðanaskiptum almennt að það sé jafnvel grundvöllur til þess núna sem kannski var ekki fyrir fáum árum síðan. Þess vegna spyr ég: Er þá ekki rétt að nýta það ef það er til staðar? Ég tel að við séum alveg reiðubúin til að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Ég mundi vilja svara því þannig.

Hvað varðar samkeppnisstöðuna þá ætti auðvitað það sama við um önnur fyrirtæki sem hafa tekið þessi skref, ef undið verður ofan af (Forseti hringir.) þessari tilskipun. Þau ættu að geta haft möguleikana á því að fara (Forseti hringir.)til baka og það ætti þá ekki að skerða samkeppnisstöðuna.