143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er að sjálfsögðu ekki þannig. Ég er bara að reyna að ræða þetta mál málefnalega og koma með innlegg sem ég tel að eigi heima í umræðu um þetta mál. Þegar þingmaðurinn vísar í það sem ég sagði um óvissu, þ.e. það er auðvitað ákveðin óvissa í því hvort hægt er að komast út úr Evróputilskipuninni, en ég benti líka á að við hefðum innleitt hana með miklu kaþólskari hætti en efni tilskipunarinnar sjálfrar gerir ráð fyrir. Ég geng út frá því að hægt sé að breyta lögunum þannig að þau að minnsta kosti samræmist þeim lágmarksviðmiðum sem er að finna í tilskipuninni sjálfri. Það tel ég að ætti að vera vandalaust, ég gef mér það. Hitt kann að vera erfiðara að afnema tilskipunina sisvona. Það er í því sem óvissan liggur en ekki kannski því að hægt sé að breyta framkvæmdinni með breytingum á lögunum.

Svo er það staða Orkuveitunnar andspænis öðrum orkufyrirtækjum og hvort þetta sé skekking á samkeppnisstöðu. Mér dettur nú bara í hug: Svo má böl bæta að benda á annað verra. Ef það er þannig að við teljum að þetta fyrirkomulag sé rangt — og mér finnst hv. þingmaður vera að vísa til umsagnar sem hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar, að ýmsir aðilar teldu að það hefði verið rangt að innleiða tilskipunina eins og gert var — er spurningin: Er þá betra að breyta þessu gagnvart Orkuveitunni þannig að hún sé komin í sömu stöðu og öll önnur fyrirtæki, og hvað svo? Ætlum við þá að fara hugsanlega að leita leiða til að vinda ofan af því? Það er auðvitað alveg hægt en það er líka spurning hvort þessi tvískipta staða myndi ekki meiri þrýsting á að menn einhendi sér í að gera breytingar á þessari löggjöf eins og ég hef verið að ræða.