143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekkert upphlaup af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli. Hv. þingmaður, formaður atvinnuveganefndar, á að taka því fagnandi að fá málefnalega, vitsmunalega umræðu um þetta mál, einkum og sér í lagi þegar hann opnar sjálfur á það að málið þurfi hugsanlega að þroskast burt séð frá því hvort þetta frumvarp verður samþykkt hér eða ekki, efni málsins þurfi að fá að þroskast eitthvað inn í framtíðina og taka verði til umfjöllunar hvort við eigum að gera einhverjar grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi. Hann á að sjálfsögðu að taka því fagnandi að fá innlegg í þá umræðu. Hann gæti meira að segja notað það sem rök fyrir sjálfan sig þegar hann mætir einhverjum öðrum í umræðum sem kunna að hafa önnur sjónarmið. Ég skil eiginlega ekki að hann skuli vera ósáttur við það að við efnum til umræðu um þetta mál þó að það sé komið kvöld seint á aðventunni og flestir vilji komast heim í jólaleyfi, við gerum það fyrr eða síðar.

Af minni hálfu og okkar er þetta fyrst og fremst hugsað til að vekja upp umræðu um þetta mál. Við vitum alveg að á sínum tíma vorum við í algerum minni hluta með skoðanir okkar á þessu máli. Við teljum að það hafi að einhverju leyti breyst og þess vegna finnst okkur eðlilegt að vekja máls á þessu hér og nú og erum að sjálfsögðu reiðubúin til að taka áfram þátt í umræðu um þróun málsins eða vinnu burt séð frá afstöðu okkar til frumvarpsins sem hér er til afgreiðslu.