143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að það þurfi að hverfa allur hvati að því að breyta lögum í átt til hagræðingar fyrir fyrirtæki eða einstaklinga í þessu landi þó að stigin séu ákveðin skref eins og í þessu máli núna. Ég fæ ekkert samhengi í það.

Það er alveg rétt að það er talsverð aðgerð fyrir fyrirtæki að skipta upp starfsemi sinni með þessum hætti. Það hafa öll fyrirtæki á orkumarkaðnum gert nema Orkuveita Reykjavíkur. Þau hafa öll farið í þessa talsverðu aðgerð og uppfyllt skilyrði laganna. Það hefur Orkuveitan líka gert núna. Þessi fyrirtæki hafa undirbúið sig undir þetta og telja sér ekkert að vanbúnaði að innleiða þessa uppskiptingu, þeir telja að þær áhyggjur sem þeir höfðu sérstaklega af viðbrögðum lánardrottna fyrirtækisins séu óþarfar í dag. Þess vegna tel ég, og það er í algeru samræmi við afgreiðslu nefndarinnar á síðasta kjörtímabili, að þetta verði látið ganga eftir núna. Þau rök sem þá voru færð fyrir því að gefa Orkuveitunni ákveðinn frest eiga ekki við í dag og það er ekki í andstöðu við fyrirtækið sem þetta er gert núna þó að vissulega vilji ég ítreka það sem fram kom hjá fulltrúum eigenda nefndarinnar að þeir telja að heppilegra væri að þessi innleiðing yrði afnumin. Það er svo allt annað mál eins og fram hefur komið.