143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til framhaldsskóla í fjárlögum.

[10:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um eina af þeim tillögum sem hér fór í gegn í fjárlagafrumvarpinu í gær. Það varðar breytingartillögu á þskj. 380 við breytingartillögu á þskj. 351 og er í nokkrum liðum.

Í fyrsta lagi er liður sem heitir Framhaldsskólar, stofnkostnaður. Mig langar til að inna ráðherrann eftir því hvort það hefur átt sér stað einhver stefnubreyting í viðhaldsmálum framhaldsskólanna frá því fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Það virðist hafa komið í ljós að 47 millj. kr. eru ónýttar af óskiptum stofnkostnaði núna um miðjan desember. Hins vegar hafa eins og við öll vitum ansi margir skólar bent á að þeir þarfnist viðhalds- og stofnkostnaðarfjár. Þá veltir maður fyrir sér hinum liðnum, Byggingarframkvæmdir, óskipt, en þar eru lagðar til 50 millj. kr. Ég velti fyrir mér hvort það hefur átt sér einhver stefnubreyting stað í þessum stofnkostnaðarmálum framhaldsskólans, þ.e. frá því frumvarpið er lagt fram.

Nú eru sem sagt veittar 50 millj. kr. án skýringa til nýs fjárlagaliðar Menntaskólans í Reykjavík en gert er ráð fyrir að þær séu til að efla brunavarnir enn frekar. Ég geri ráð fyrir að í fjárlögum hafi þegar verið gerðar áætlanir um aðrar framkvæmdir af þessum lið, ekki það að ég geri ráð fyrir því að Menntaskólinn í Reykjavík þarfnist ansi mikilla lagfæringa og sýti ekki að það verði gert. Það leiðir til spurningar um hvort framkvæmdahraða við MS eða FÁ hafi verið breytt eða hvernig eigi í rauninni að fjármagna þessa vinnu við MR.

Mig langar líka að spyrja hvort útboð hafi farið fram vegna nýbyggingar við Menntaskólann við Sund, en þar á framkvæmdum að ljúka í árslok 2014.