143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til framhaldsskóla í fjárlögum.

[10:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er kannski það sem við vitum að bæði MR og fleiri skólar hafa mikla þörf fyrir viðhaldsfé og nýbyggingar- eða stofnkostnaðarfé. Það breytir því samt ekki að hér er talað um að heimildir hafi verið ónýttar sem vekur auðvitað furðu þegar við þekkjum ástandið mjög víða. Þá veltir maður því fyrir sér, úr því að hér er á síðari stigum tekin ákvörðun um að nýta 47 milljónir, hvaða verkefnum sé þá frestað í staðinn. Ég mundi vilja að ráðherrann segði mér hvað það er og hvort þetta hefur verið samþykkt formlega. Nú er þetta að koma hér inn á lokametrunum í fjárlögum og þess vegna spurði ég um stefnubreytingu af því að vanalega fer svona í gegnum tiltekna umræðu en ekki bara, að því er mér finnst, bakdyramegin í gegnum fjárlög. Það væri áhugavert ef ráðherrann gæti sent okkur í fjárlaganefnd einhvers konar forgangslista yfir þau verkefni sem fram undan eru varðandi framhaldsskólana. Ég tek fram að ég geri mér alveg grein fyrir því að MR er ekki vel staddur.