143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

skattar á fjármálafyrirtæki.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er vissulega óheppilegt að sú breyting sem boðuð var síðastliðin mánaðamót skuli ekki enn hafa komið til nefndar. Það hefur legið fyrir að á milli 2. og 3. umr. verði gerðar breytingar á bankaskattinum og að tekjur ríkisins vaxi um 22 milljarða, það gæti orðið eitthvað aðeins minna eða rétt um það bil, eins og kynnt verður fyrir fjárlaganefnd í dag þegar tekið hefur verið tillit til annars vegar þess að sveitarfélögin fá hlutdeild í skattinum og hins vegar þess að tekjutapsáhrif verða af öðrum skattbreytingum sem leiða af séreignarsparnaðarleiðinni.

Varðandi það hversu lengi þessi skattstofn kemur til með að lifa er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það atriði er háð mikilli óvissu. Í því frumvarpi sem kynnt var hér í haust er þess getið í greinargerð að í því máli sé gengið út frá því að skattstofninn sé a.m.k. til tveggja ára. Það er ómögulegt að festa hendur á einhverri ákveðinni tímalengd í þessu efni. Það sem ég horfi hins vegar til er að eins og sakir standa er augljóst að það mun þurfa töluvert miklar afskriftir af íslenskum eignum innan þrotabúanna til að við getum komist í afnám haftanna. Þess vegna leyfi ég mér að segja að jafnvel þótt þessi skattstofn mundi á komandi árum hverfa, þ.e. uppgjöri fjármálafyrirtækja í slitum mundi ljúka með nauðasamningum, gjaldþroti eða öðrum hætti, yrði til með einhverjum öðrum hætti skattstofn fyrir ríkið sem jafngilti að minnsta kosti því sem bankaskatturinn stendur undir.