143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til hjúkrunarheimila.

[11:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að heyra að ráðherrann og ráðuneytið hyggjast tryggja það að ekki verði hnökrar á þeirri þjónustu sem nú er veitt í Sunnuhlíð. Það eru mikilvægar fréttir fyrir íbúa, starfsfólk og aðstandendur þar.

Ég gerði svo sem ekki ráð fyrir því að ráðherra mundi gauka fram einhverjum milljörðum til að hækka daggjöldin, en mig langar í framhaldi af því að inna ráðherrann eftir því hvort hann telji að þessir rekstrarerfiðleikar hjúkrunarheimilanna, ekki bara Sunnuhlíðar heldur þeirra allra, muni hafa áhrif á viðræðurnar eða þá samninga sem eru í gangi um yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaganna og hvort þetta muni tefja fyrir þeirri vegferð.