143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til hjúkrunarheimila.

[11:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi hér til mín síðast um hvort þetta komi til með að hafa áhrif á yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaga. Ég get alveg upplýst það sem mína skoðun að ég hef engan áhuga á því að skila málaflokknum yfir til sveitarfélaga í því ástandi sem hann er í í dag. Það er algjörlega glórulaust. Við verðum að hafa betri mynd, fyllri stöðu af þessum málaflokki. Við verðum jafnframt að hafa einhverja stefnu til lengri tíma um það hvernig við ætlum að koma stofnanaumhverfi þessa aldurshóps þjóðfélagsins í betra lag en nú er. Þetta er mikið verkefni og tekur langan tíma. Ég vænti þess, eins og ég gat um í fyrra andsvari mínu, að fá í hendurnar einhvern grunn til að byggja á um mitt ár. Þannig er staðan. Önnur mál hafa vissulega verið í forgangi og þar er heilbrigðisþjónustan númer eitt. Við sjáum aðeins betur til lands þar en áður var, þá er þetta næsta verk.