143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hingað munu kom til atkvæða allmargar breytingartillögur sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum og eru hluti af heildarsýn okkar á ríkisfjármálin þar sem við erum að reyna að treysta tekjugrunn ríkisins og tryggja tekjur til að leggja í heilbrigðis- og menntamál, velferðarmál og uppbyggingu af ýmsu tagi.

Í frumvarpi þessu gætir margra grasa. Þar er framlenging á ýmsum ágætum ákvæðum eins og átakinu Allir vinna, óbreyttu fyrirkomulagi vaxtabóta og að ekki megi skuldajafna greiðslum í bótakerfinu, sem við styðjum að sjálfsögðu, en annað er miður gott og við leggjumst gegn því.

Breytingartillögur varðandi bankaskatt eru til bóta. Við munum styðja þær aðrar en prósentutöluna sem enn liggur ekki fyrir sem er miður.

Atkvæðagreiðslan er nokkuð flókin og bestu ráðin sem ég get gefið hv. þingmönnum er að fylgja mér í atkvæðagreiðslunni. [Hlátur í þingsal.]