143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér leggjum við til framlengingu svonefnds auðlegðarskatts, þó þannig breyttan að tekið er upp tiltekið frítekjumark vegna eignar í íbúðarhúsnæði til eigin nota upp á 30 millj. kr. fyrir einstakling og 40 millj. kr. fyrir hjón. Með því teljum við að sé mætt því sjónarmiði sem meðal annars hefur verið notað gegn þessari skattlagningu að hún geti lagst þungt á þá sem eiga stóran hluta eigna sinna í skuldlausu íbúðarhúsnæði og hafa litlar tekjur. Engu að síður mundi skattur af þessu tagi skila milli 8 og 9 milljörðum kr. í ríkissjóð á árinu 2015 og verja hann fyrir því mikla tekjufalli sem hann á þá í vændum að óbreyttu miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar. Þá stefnir í að yfir 20 milljarðar kr. verði horfnir út úr tekjugrunni ríkisins. Það skapar augljóslega mikinn vanda í afkomu ríkissjóðs til framtíðar litið. Við teljum með öllu fráleitt að hverfa alfarið frá þessari skattlagningu þó að málefnalegt kunni að vera að endurskoða hana eitthvað eins og hér er lagt til.