143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til að hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi verði 0,75% á næsta ári í stað 0,65% sem stjórnarmeirihlutinn leggur til. Engu að síður væri þar um mikla lækkun að ræða en þetta mundi þó verja stöðu Fæðingarorlofssjóðs og gera betur en að fjármagna þá lengingu fæðingarorlofsins um einn mánuð sem gildandi lög standa til.

Meðferð hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á fæðingarorlofsmálaflokknum er með ólíkindum þar sem öll áform um uppbyggingu og lengingu fæðingarorlofs eru slegin af. Verra er að tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs er næstum helmingaður sem mun leiða til þess að hann gengur verulega á eigið fé sitt strax á næsta ári og kemst í þrot eftir árið 2015 að óbreyttu. Það er allur metnaðurinn sem ríkisstjórnin og hennar lið hefur í þessum málaflokki. Það er ákaflega dapurlegt.

Þessi litla breyting, sem er ekki nema 0,1% af tryggingagjaldsstofni, mundi valda stöðu sjóðsins betur. Ég mæli með því að þeir styðji þessa tillögu sem er annt um fæðingarorlofsmál.