143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um breytingartillögur meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um álagningu skatts á fjármálafyrirtæki. Fram hafa komið ýmsar athugasemdir í umræðu undanfarinna mánaða um hættur sem fylgja skattlagningu af þessum toga. Ég tel, hafandi fylgst með vinnubrögðum meiri hluta nefndarinnar, að menn hafi gert það sem þeir geta til þess að ganga úr skugga um að þessi skattur sé eins vel lagður á og kostur er. Við eigum sem þjóð mikið undir því að þessi skattur standist, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn hefur boðað að á móti þessum skatti hyggist hún flytja yfir á ríkissjóð umtalsverðar byrðar. Í trausti þess að nefndin hafi róið fyrir hverja vík í þessu máli og meiri hluti hennar í þessari vinnu munum við greiða þessum skatti atkvæði okkar.