143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum skattlagningu á fjármálafyrirtæki þó að þau séu í slitameðferð eins og hér hefur verið lagt til. Við gerum það á grundvelli yfirferðar efnahags- og viðskiptanefndar þar sem lögfræðileg álitaefni minnkuðu að okkar mati þó að vissulega séu þau enn fyrir hendi. Við gerum hins vegar athugasemdir við hvernig á að ráðstafa þessum fjármunum en það er önnur umræða. Einnig bendum við á að þessi skattur er auðvitað tímabundinn, hann er ekki varanlegur og samkvæmt forsendum þessa frumvarps á hann að fjara út um mitt þetta kjörtímabil.

Hér greiðum við hins vegar atkvæði um prósentutöluna. Það er ekki hægt annað en sitja hjá vegna þess að við vitum vel að endanleg prósentutala hefur ekki komið til meðferðar hér í þinginu. Þannig að þessi atkvæðagreiðsla er í raun og veru marklaus.