143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjárlagagerðina fyrir árið 2013 í desember 2012 talaði ég gegn því að farin yrði sú leið sem meiri hlutinn ákvað að fara með samningi við Reykjavíkurborg um Perluna. Ég er enn þá þeirrar skoðunar sem ég var þá að það er nauðsynlegt fyrir þessa ríkisstjórn eins og hefur verið fyrir flestar aðrar ríkisstjórnir að finna Náttúruminjasafni stað. En ég talaði gegn þeim gjörningi sem gerður var hér fyrir fjárlög 2013 og ég mun áfram tala gegn honum. Ég fagna því að sjá hér að þetta er afturkallað og við getum hafið þá vinnu sem þegar var hafin á síðasta kjörtímabili að finna Náttúruminjasafninu varanlegan samastað en ekki með þessum hætti.