143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Eftir því sem ég best veit vega orð framsögumanns þungt í lögskýringu í málinu þannig að segja má að þetta sé komið inn í málið til skoðunar fyrir nefndina sem verður skipuð og það verði skoðað hvernig þetta gæti verið samanlagt með foreldraorlofi og eins að foreldrarnir ynnu hluta úr starfi, jafnvel 60% hvor, og þeir eiga rétt á því þannig að þeir geta væntanlega allt að því sagt launagreiðanda sínum hvernig þeir vilja hafa þetta. Síðan ef sveitarfélagið kæmi inn í dæmið með þennan mikla kostnað sem kostar að vista eitt barn á eins árs aldri, um 180 þús. kr. á mánuði. Það gæti jafnað upp það tekjutap sem foreldrarnir verða fyrir þegar þeir taka ólaunað foreldraorlof.

Mér finnst þetta skipta verulega miklu máli vegna þess að við erum að fjalla um það hvernig ungi borgarinn mætir lífinu. Mér finnst of snemmt að senda hann út í lífið níu mánaða, jafnvel eru mörg börn ekki nægilega þroskuð til að fara tveggja ára. En það er betra að þau séu heima í tvö ár ef foreldrarnir kjósa það, vegna þess að fyrstu árin er barnið að átta sig á umhverfi sínu sem er heimilið, mynda tengsl og annað slíkt. Ég tel mjög mikilvægt að foreldrarnir hafi þarna val til að vera jafnvel allt að einu ári lengur heima með barninu sínu.