143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[13:04]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir andsvarið. Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við. Það er breytt stefna í ýmsum málum. Ef ég á að svara þessu persónulega vill maður auðvitað alltaf gera betur. Ég ber hag barnafjölskyldna fyrir brjósti og allra fjölskyldna. Við fórum þá leið að hækka þakið varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Mér fannst það kostur en töluvert af þeirri hækkun varð í fyrri ríkisstjórn. Mér þætti gaman að sjá það einhvern tímann gerast að fæðingarorlofið yrði lengt, það er mín persónulega skoðun. Ég ítreka að það er ný ríkisstjórn með breyttar áherslur í þessum málum. Í kjölfar þeirrar stefnu er mjög mikilvægt, og ekkert bara vegna þeirrar stefnu, að þessi tillaga fari á umræðugrundvöll hjá sveitarfélögunum því að þau hafa með þennan málaflokk að gera, þ.e. vistun leikskólabarna.