143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fjalla um breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við 3. umr. málsins. Í fyrsta lagi er hér gert ráð fyrir breytingum í samræmi við fram komið frumvarp um fjárhagsaðstoð til greiðslu trygginga fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Það er mál sem við styðjum heils hugar og erum mjög ánægð með að hafi komist áfram og teljum það mjög mikilvægt skref í úrvinnslu vegna skuldugra heimila.

Í annan stað er um að ræða breytingar sem leiða af samkomulagi milli formanna þingflokka um lúkningu þingstarfa hér fyrir jól. Við sömdum um að vinda ofan af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hafði ráðist í og lutu að því að skerða svigrúm í rannsóknar- og þróunarstarfsemi og því er hámark, sem gert var ráð fyrir á frádrætti vegna þróunarkostnaðar hjá nýsköpunarfyrirtækjum, fellt niður. Hér er líka að finna ákvæði sem gerir ráð fyrir því að felld verði niður gjöld vegna innlagnar á sjúkrahús. Það er mikilvægt að undirstrika það hér að forsenda samninga milli formanna þingflokka, um þessi atriði og önnur er leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, var að sjálfsögðu ávallt sú að á móti mundi skerðast afgangurinn af ríkisrekstrinum en ekki að skorið yrði niður á öðrum stöðum til að fjármagna það að horfið yrði frá þessum niðurskurði.

Virðulegi forseti. Hér er síðan að finna breytingar vegna ákvæða um starfsendurhæfingarsjóði á næsta ári. Ég ætla svo sem ekkert að orðlengja það frekar með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur gengið fram í þeim málum, en undirstrika að ég tel mjög mikilvægt að náðst hafi ákveðið sammæli milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda um að hverfa frá hinum heiftarlega niðurskurði sem gert var ráð fyrir hjá Vinnumálastofnun til þess að styðja frekar við þjónustu við atvinnuleitendur á næsta ári og koma þar með í veg fyrir þann alvarlega samfélagsvanda sem ella blasir við ef við höldum ekki sjó í því að þjónusta fólk sem hefur verið atvinnulaust og hjálpum því að komast út á vinnumarkaðinn að nýju.

Það er algjörlega úrelt hugsun að halda að alvarlegt atvinnuleysi, eins og það sem við gengum í gegnum eftir hrun, leysist af sjálfu sér. Það mun ekki gera það. Það þarf mikinn atbeina til til að hjálpa fólki að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Fjárþörf til þess mun fylgja okkur mörg næstu ár. Ef við vanrækjum fjárveitingar í dag verða þær bara enn dýrari á næsta ári eða þarnæsta. Ef við horfum á reynslu Finna og Svía af niðursveiflunni miklu í upphafi 10. áratugarins er þetta myndin sem blasir við. Þannig að fjárfesting sú sem við réðumst í strax í kjölfar hruns, í að greiða strax götu þeirra sem voru að glíma við atvinnuleysi inn í skólakerfið, inn í alls konar þjálfun og menntun og þróun, hún skiptir miklu máli og það skiptir mál að halda því verkefni áfram.

Virðulegi forseti. Hér er síðan gert ráð fyrir breytingum er varða Ríkisútvarpið. Ég tel óhjákvæmilegt að koma hér upp og setja almennan fyrirvara við þá vegferð sem stjórnarmeirihlutinn er á varðandi Ríkisútvarpið og breytingar þar. Hér er gengið út frá því að hægt verði að ná sparnaði með því að fresta gildistöku tiltekinna breytinga, sérstaklega stofnunar dótturfélags fyrir Ríkisútvarpið, breytinga sem eru afleiðingar af þeim skilmálum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett Ríkisútvarpinu fyrir starfsemi þess á samkeppnismarkaði í kjölfar áralangs málarekstrar sem má rekja alveg aftur til ársins 2004. Allan þennan tíma hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið með til umfjöllunar og meðferðar stöðu Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, hversu rúm hún megi vera, hvernig haga eigi umgjörð utan um rekstur sem er í eðli sínu samkeppnisrekstur og hversu fyrirferðarmikið Ríkisútvarpið megi vera á auglýsingamarkaði. Úr þessu kemur niðurstaða. Hún felst meðal annars í því að samkeppnisrekstur eigi að fara í sérstakt dótturfélag. Nú ákveða menn að spara peninga með því að fresta þeirri aðgerð og gefa sér að hægt sé að fá samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA við því. Það er ekkert í hendi um það. Þvert á móti liggur fyrir að í málarekstrinum á undanförnum árum hefur ítrekað verið stungið upp á þeirri leið sem stjórnarmeirihlutinn segist núna ætla að fara, en hún er sú að Ríkisútvarpið lofi því að halda fjárstreymi vegna samkeppnisrekstrarins aðskildu frá öðru fjárstreymi í rekstrinum. Það er margbúið að reyna að fara þessa leið gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA, því hefur alltaf verið hafnað. Það er því ekkert í hendi um að árangur muni nást að þessu leyti.

Því til viðbótar er það síðan upplegg ráðuneytisins að gefa Ríkisútvarpinu ríkari heimildir til þess að sækja auglýsingatekjur á almennum markaði í samkeppni við fjölmiðla sem eru að reka sig á samkeppnismarkaði. Mér finnst það mjög vafasöm þróun og enn og aftur ekki nauðsynlega skynsamleg. Ég spyr líka: Er það gefið að hún standist skoðun hjá Eftirlitsstofnun EFTA?

Ég vil draga þetta hér fram til að undirstrika að ríkisstjórnin er komin á mjög hálan ís í þessu tilviljanakennda krafsi sínu við að reyna að róta saman einhverjum peningum til að reyna að ná niðurskurðinum saman sem er óhjákvæmilegur vegna þess hvernig hún hefur verið að létta gjöldum af þeim sem eru í bestum færum til að borga þau. Þá er það auðvitað þannig að menn geta ekki bara ákveðið að setja eitthvað á blað alveg óháð því hvort það stenst eða ekki. Í þessu tilviki bendir ekkert til þess að ríkisstjórnin eða stjórnarmeirihlutinn muni komast upp með þær aðhaldsaðgerðir sem hér eru lagðar til, heldur liggur þvert á móti fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hefur ítrekað hafnað þeirri útfærslu sem þarna er stungið upp á í sparnaðarskyni á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það sem hér er að finna. Við fögnum því auðvitað að hafa haft áhrif á forgangsröðun stjórnarmeirihlutans í fjárlagagerðinni og að hluta til sér þess stað hér í þessu tiltekna máli og breytingartillögum að fallið er frá hámarkinu á þróunarkostnaðinn sem fyrirtæki geta fengið skattafslátt út á og þess sér líka stað í því að felldar eru út heimildir til að leggja á sjúklingagjöld. Það er ánægjuefni að okkur hefur tekist að hafa þau áhrif. Eftir stendur samt að stjórnarmeirihlutinn er hér með upplegg um aðhaldsaðgerðir sem engar skýrar forsendur eru því miður um að geti staðist eða þoli skoðun og virðast frekar fela í sér óskalista en raunhæfar tillögur.